Nú er mars senn að ljúka en mánuðurinn hefur verið viðburðaríkur. Jarðhræðingar síðustu mánuða brutust fram í eldgosi og faraldurinn sýndi klærnar aftur. Það er okkar ósk – eins og allra landsmanna – að hægt verði að kveða hann niður hratt og örugglega. Við þökkum ykkur kærlega fyrir að taka virkan þátt í eTwinning og óskum ykkur góðra páska.
Í þessu fréttabréfi verður fjallað um úrslit eTwinning skóla, verkefni um eldgos, verkefnastuðning og verkefnapakka.
Úrslit eTwinning skóla
Skólarnir sem hlutu titilinn í ár voru Flensborgarskóli, Hrafnagilsskóli, Grunnskóli Vestmannaeyja og Verzlunarskóli Íslands. Hrafnagilsskóli og Verzlunarskólinn voru að hljóta titilinn í annað skiptið í röð. eTwinning skólar á Íslandi eru því nú 13 talsins, sem verður að teljast virkilega vel gert (sérstaklega miðað við höfðatölu!) og erum við hjá Landskrifstofunni afar stolt af þessum árangri. Hægt er að lesa nánar um úrslitin í frétt sem birtist hér á blogginu fyrir nokkrum dögum.
Verkefni um eldgos
Gosið á Reykjanesi vekur víða áhuga og Danir leita nú óðfluga að áhugasömum skólum og kennurum til að vinna saman að eTwinning verkefni um gosið við Fagradalsfjall. Hugmyndin er að nemendur á norðurlöndunum geti fræðst um áhrif gossins á daglegt líf íslenskra nemenda og lært almennt um eldfjöll og áhrif þeirra á íslenskt landslag. Tilvalið tækifæri til að mynda tengsl við skóla á Norðurlöndunum en hluti samskipta mun fara fram á ensku – en hluti á dönsku (eða öðrum skandinavískum málum) fyrir þá sem það vilja. Verkefnið gæti því til dæmis verið kjörið fyrir dönskukennara þar sem nemendur segja frá upplifun sinni af gosinu á dönsku – en einnig fyrir landafræði og jarðfræðikennara. Verkefnið má finna hér á Twinspace og hvetjum við alla til að skoða það.
Verkefnastuðningur á blogginu okkar
Við höfum sett upp sérstaka undirsíðu á blogginu okkar um verkefnastuðning við eTwinning verkefni (sjá efst á síðunni) Þar er hægt að finna gagnlegar upplýsingar fyrir nýja notendur – sem og þá sem vilja rifja upp hvernig eTwinning virkar. Fjallað er um TwinSpace samstarfssvæðið, gæðamerki og verðlaun, netöryggi og netvenjur ásamt stuðningi landskrifstofu og sendiherra og ýmis góð ráð um eTwinning samstarf. Framvegis verður verkefnastuðningurinn auglýstur í mánaðarlega fréttabréfinu og í póstinum sem býður nýja notendur velkomna í eTwinning, ásamt því að hann er alltaf aðgengilegur á blogginu okkar. Við minnum einnig á að vakni spurningar má alltaf hafa samband við landskrifstofu.
Uppskrift að verkefni
Á eTwinning live er að finna fjöldan allan af verkefnapökkum (Project Kits) sem geta nýst sem innblástur að nýjum verkefnum. Vefurinn býður upp á að leita að verkefnapökkum eftir erfiðleikastigi, námsgreinum og skólastigi – ásamt þeirri lykilhæfni sem unnið er með í verkefninu. Hér er t.d. uppskrift að verkefni fyrir breiðan aldurshóp, 4-12 ára, þar sem áhersla er á frásagnargleði og sagnagerð. Nemendur vinna saman að verkefnum um þjóðsögur í löndum samstarfsbekkjanna og bera saman við þjóðsögur í eigin löndum. Nemendur eru síðan hvattir til að nota sköpunargleði og ímyndunarafl til að veita hvoru öðru innblástur til að lesa og skrifa meira. Nemendur útbúa einnig sögur í samvinnu við aðra, læra uppsetningu texta og búa svo til leiki út frá sögunum sem þau hafa skrifað.