Fréttabréf eTwinning febrúar 2021

Nú er febrúar liðinn með hækkandi sól og njóta landsmenn góðs af miklum tilslökunum í faraldsmálum, þó að jarðskjálftar hafi eiginlega sett meiri svip á síðustu daga en faraldurinn. Við þökkum ykkur fyrir að taka þátt í eTwinning og trúum því að aukið alþjóðlegt samstarf sé til mikilla bóta fyrir nemendur og skóla á Íslandi.     

Í þessu fréttabréfi 

  • eTwinning skólar
  • Quality Label umsóknir
  • Verkefni mánaðarins
  • Verkefnapakkar og verkefnastuðningur

eTwinning skólar

Í byrjun febrúar rann umsóknarfrestur um merki eTwinning skóla út. Aðeins þeir skólar sem uppfylla ákveðin skilyrði geta sótt um að vera eTwinning skólar en eru þeir 11 talsins á Íslandi í dag. Að fá viðurkenninguna felur í sér að skólinn er hluti af fremstu skólum Evrópu. Hljóta þeir skólar sem hafa fengið viðurkenninguna aðgang að ýmsum gögnum, vinnustofum og tengslaneti við aðra eTwinning skóla. Verið er að fara yfir umsóknir og eru úrslitin kynnt í mars.      

Quality Label umsóknir

Nokkrar umsóknir bárust upp úr áramótum um Quality Label gæðamerki fyrir tvenn verkefni sem tengdust jólahátíðinni á einn eða annan hátt. Landskrifstofan hefur nú farið yfir umsóknirnar og hlutu allir þátttakendur verkefnanna gæðamerki.
Verkefnin voru Christmas with Stem! og Christmas at 64° North. Við óskum þeim til hamingju en nánar er fjallað um verkefnin í liðnum Verkefni mánaðarins hér fyrir neðan.
Auðvelt er að sækja um gæðamerki fyrir verkefni inni á eTwinning vefnum en hér er hægt að finna nánari leiðbeiningar. Hver og einn kennari í verkefni þarf að sækja sérstaklega um gæðamerki, þar sem gæðamerkin eru veitt til einstaklinga en ekki verkefnisins í heild. Í ár verður árlegur umsóknarfrestur fyrir eTwinning gæðamerkin í lok skólaárs, seint á vorönn. Nánari upplýsingar um dagsetninguna verða sendar síðar.      

Verkefni mánaðarins

Christmas with STEM
Hugmyndin að baki Christmas with STEM er í grunninn að finna nýstárlegar og áhugaverðar til að stytta biðina eftir jólunum, og virkja krakkana með krafti raungreina. STEM er eins konar yfirhugtak fyrir námsgreinarnar vísindi, tækni, verkfræði og stærðfræði. Virkilega vel tókst til og fengu nemendurnir að prófa alls kyns tilraunir sem brutu upp daglegt leikskólastarf með skemmtilegum og nýstárlegum hætti, en verkefnið var unnið í samstarfi við leikskóla í Litháen. Verkefni af þessu tagi er nákvæmlega það sem eTwinning snýst um – að tengja saman mismunandi menningu í gegnum leik og lærdóm, byggt á frumkvæði kennarana sjálfra. Lesið nánar um verkefnið hér.

Krakkar fylgjast með málningartilraun


Christmas at 64°North 
Nú á dögunum hlaut jólaverkefnið „Christmas at 64°North“ gæðamerki eTwinning. Verkefnið er fyrsta eTwinning verkefnið sem leikskólinn Lækur tekur þátt í. Unnið var með elstu nemendum skólans en í verkefninu var jólamenning annarra landa kynnt fyrir nemendum, ásamt því að þau kynntu íslenskar jólahefðir fyrir nemendunum erlendis. Samstarf var við leikskóla á Spáni og í Rúmeníu og nutu kennarar að kynnast kennsluaðferðum ólíkra landa, á meðan nemendur juku færni sína í máli, læsi og félagsfærni. Lesið nánar um verkefnið hér

Jólahefðir eru fjölbreyttar milli landa

Verkefnapakkar

Ert þú að leita að innblæstri fyrir eTwinning verkefni? Það gæti verið mjög sniðugt að skoða verkefnapakkana á eTwinning Live. Verkefnapakkar (Project Kits) eru tilbúnar og ítarlegar verkefnalýsingar þar sem öllum stigum verkefnisins er lýst skref fyrir skref. Pakkarnir geta nýst sem gott tól fyrir byrjendur en einnig þá sem eru lengra komnir í eTwinning samstarfinu. Vefurinn býður upp á að leita að verkefnapökkum eftir erfiðleikastigi, námsgreinum og skólastigi og þeirri lykilhæfni sem unnið er með í verkefninu. Hér eru nokkur dæmi um verkefni fyrir mismunandi aldushópa

Fyrsta verkefnið er fyrir aldurshópinn 4-7 ára og snýst um að kynna krökkunum fyrir nærumhverfi sínu á skemmtilegan hátt og í því eru náttúran og upplýsingatækni í fararbroddi. Annað verkefnið er ætlað 12-15 ára og byggir á að kynna menningu og hefðir fyrir ungu fólki í gegnum heimsminjar UNESCO. Að lokum er verkefni fyrir 15-19 ára þar sem farið er í mikilvægi lýðræðisþátttöku ungmenna og þeim breytingum sem ungt fólk getur komið á í samfélaginu þrátt fyrir að hafa ekki enn hlotið atkvæðisrétt.

4-7 ára – Nature is my culture 
12-15 ára – Cultural Heritage 
15-19 ára – Too young to vote, old enough to make a change!  

Verkefnastuðningur

Inni á blogginu okkar er nú komin undirsíða sem heitir Stuðningur við verkefni. Þar er að finna mjög greinargóðar upplýsingar fyrir þá sem eru að vinna að verkefnum, t.d. íslensk myndbönd með leiðbeiningum, upplýsingar um gæðamerki, netöryggi og ýmislegt fleira. Þar má einnig finna upplýsingar um eTwinning sendiherrana og meðlimi landskrifstofunnar, sem hægt er að hafa samband við ef einhverjar spurningar vakna.


Að lokum viljum við á landsskrifstofunni þakka ykkur fyrir að vera virkir notendur eTwinning á Íslandi og við vonumst til að eTwinning nýtist á þessum tímum Covid-19 og síaukinnar fjarkennslu. Við minnum ykkur jafnframt á að þið getið alltaf leitað til okkar ef þið eruð með einhverjar spurningar. Við erum til þjónustu reiðubúin.
 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s